Road to better life
  • Blog
  • Leiðin til betra lífs
  • Instagram
  • Video
  • English

Þingvallakeppnin 2014

Picture
Annað árið mitt sem ég mæti í Þingvallakeppnina og í fyrra mætti ég einungis með eitt markmið, reyna að hanga í fremsta hóp eins lengi og hægt er. Þeir sem lásu keppnissöguna vita að mér tókst að hanga í fremsta hóp alla leið í mark og tók þátt í svaðalegum endasprett þar sem vel yfir 20manns komu saman í einum hnapp í mark. Ég horfði á eftir sigurvegaranum einungis nokkrum metrum fyrir framan en hafnaði sjálfur í ellefta sæti. Þá var logn og hópurinn hafði meiri möguleika á að vinna saman. 

Í ár var annað upp á teningnum, Rok og rigning sem fyrir flesta myndi flokkast sem slagveður. Það var því ljóst að hópurinn ætti í mun meiri erfiðleikum að hanga saman sem varð síðar reyndinn. Strax í fyrstu brekkum var hraðinn keyrður vel upp og ég eins og alltaf dróst ég aftur úr í brekkunum. Á toppnum slitnaði á milli manna og 6 manns komust frá og myndaðst fljótt hópur með öðrum 7 manns þar fyrir aftan. 

Þegar við hjóluðum niður að Vatnsvík varð liðsfélagi minn hann Ármann fyrir því að hjóla í misjöfnu í veginum að ég held og tók slæma biltu og endaði sjálfur í malbikinu með tilheyrandi bremsuförum á lærum og handleggjum. Við sáum að hann stóð upp og ég ákvað að halda mig aftarlega ef ske kynni að hann reyndi að ná okkur aftur en hjólið hans var það laskað að hann þurfti að hætta keppni. Sex menningarnir sem eftir voru byrjuðum að vinna vel saman og fljótlega eftir ábendingar frá Alberti Þjálfara byrjuðum við að taka örari skiptingar og var þetta fyrirkomulag mjög gott. Þá var maður ekki lengi fremst, og þegar maður fór afturfyrir þá var maður ekki lengi að koma sér aftur í skjól en eins og í Reykjaneskeppninni var oft mikill hliðarvindur og þá raða menn sér á ská á veginum og lítið skjól fyrir aftasta mann á þröngum vegi.
Picture
Hjólreiðafélag CFRvk
Staðan breyttist ekkert þar til á þriðja hring þegar við náðum Emil Þór sem hafði dottið aftur úr fremsta hóp. Hann kom ferskur inn í hópinn okkar og hóf strax að vinna vel með okkur. Í brekkunum á þriðja hring fann ég hvernig léttustu mennirnir tóku þéttar keyrslur upp brekkurnar og ákvað ég að spara mig vel fyrir síðasta hring. Ég hjólaði ávallt í skjóli eins og ég gat og tók ekki þéttar keyrslur fremst, og í raun var það óþarfi þar sem ljóst var að við myndum ekki ná fremstu mönnum. 

Á fjórða hring fór ég að undirbúa mig fyrir síðustu brekkurnar, vonaði að hinir ættu ekkert inni og mundi ráðleggingar Þjálfarans að í brekkum geta léttu mennirnir síður slitið sig frá í mótvind. Ég náði með herkjum að hanga í mönnum upp og um leið fór ég fram úr þeim öllum og beint niður, eins hratt og ég gat. Ég skildi viljandi eftir pláss fyrir einn hægra megin við mig þar sem skjólið var í von um að einhver myndi elta, ná að hanga í mér og gæti síðan unnið með mér alla leið í mark. Það tókst, Emil Þór kom á eftir mér og þegar við beygðum niður að Vatnsvík kom hann framfyrir og við byrjuðum að vinna saman. 
Picture
Mynd: Hjólreiðafélag CFRvk
Þetta hefði líklega gengið upp og virkað nema að einn af bestu Þríþrautarmönnum á landinu var með í för. Viðar Bragi kom æðindi á eftir okkur, dró allan hópinn á eftir sér og fljótlega var hópurinn saman á ný. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru þríþrautarmenn vanir að hjóla einir í langan tíma og þjálfa sig í að halda uppi háu álagi í langan tíma og þola því síður hraðabreytingar. 

Upphófust óreglulegar skiptingar og þótti mér óþægilegt að vita ekki nákvæmlega hvað væri langt í endamark. Rigningin gerði það að verkum að maður sá voðalega lítið. Þegar ég var aftarlega í hópnum sá ég að Viðar Bragi keyrði upp álagið og Helgi Páll fór á eftir honum ot tók langan endasprett, sem viðar Bragi vann. Enginn gat elt og þegar endamarkið nálgaðist gaf ég allt sem ég átti eftir og kom þriðji í mark 7 manna hópnum okkar. 8. sæti í heildina og 4. sæti í aldursflokk. 

Hér er svo video af endasprettinum
Picture
Kærar þakkir fá:
Hjólamenn fyrir vel skipulagða og skemmtilega keppni
Trí fyrir frábært Cube Litening hjól
Ágúst Reynisson og Fiskmarkaðurinn fyrir góðan stuðning
Garminbúðin fyrir Garmin Vector Aflmæli
Hjólreiðafélag CFRvk fyrir myndir
Síðast en ekki síst, kærastan mín sem hefur stutt mig vel, og í dag mætti hún í sína fyrstu racer keppni og beint á pall auðvitað, til hamingju með það :)


Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Proudly powered by Weebly