Shimano Reykjaneskeppnin 2014
Fyrsta götuhjólakeppni sumarsins er Reykjaneskeppnin og hefur ávallt verið haldin í lok apríl, stundum hefur snjóað og frægt þegar nokkrir hjólreiðamenn hættu við að fara suður á Reykjanesið vegna snjókomu í bænum. Keppnin hefur þó alltaf verið haldin undanfarin ár við reyndar misjafnar aðstæður og í fyrra var kalt og nokkuð blautt.
Líklega gerir engin ráð fyrir logni á Reykjanesinu og því voru líklega bestu mögulegu aðstæður í boði þetta árið þegar við fengum sól, 6 gráðu hita og nokkuð rok frá norð austri. Fyrir þá sem þekkja ágætlega til hjólreiða láta það ekki koma sér á óvart að það sé sprett hressilega af stað í svona keppni. Það atvikast bæði að því að keppnin er stutt, eða 64km og þegar það er meðvindur þá nýta sterkustu mennirnir sér það því aðrir keppendur fá minna kjölsog í meðvindinum. Þar sem brautin hlykkjast niður Reykjanesið eins og snákur breytist vindáttinn frá hliðarvind í meðvind til skiptis nokkrum sinnum og á viðsnúningi við Reykjanesvirkjun tekur við hraustlegur mótvindur. Það var raunin í ár eins og undanfarin ár að sprett var af stað strax í rásmarki, engin miskun, beint upp í hámarkspúls, wöttin í botn og 60km hraði var tala sem sást oftar en ekki á hraðamælinum. Ég hafði komið mér framarlega á ráslínu og tók strax að líta í kringum mig og leita að sterkum mönnum til að elta og reyna að spara orku. Hákon Hrafn kom aðvífandi og elti ég hann eins og ég gat þar til við náðum Valla sport sem ég ákvað að elta frekar enda Hákon á mikilli ferð, við flugum áfram saman og tókum fram úr nokkrum sem höfðu greinilega komið sér enn betur fyrir á ráslínu en við en höfðu ekki erindi sem erfiði að elta þessa fremstu menn. Þegar við höfðum hjólað á útopnu á eftir fremstu grúbbu náðum við þeim en bara til þess að missa af þeim aftur þegar hraðinn tók kipp að nýju. Við þessa hraða aukningu duttu menn aftan úr halarófunni og við tókum upp samstarf og mynduðum þannig hóp nr2, sífellt bættist í hópinn okkar úr fremstu grúbbu og við það stækkaði hópur 2 og styrktist þannig. Hraðinn á hóp 2 byrjaði svo að aukast jafnt og þétt og þegar við höfðum hjólað í rúmlega 20 mín var hraðinn orðinn of mikill fyrir mig, ég datt aftur úr og hjólaði einn í 10 mín eða svo, ég ákvað að halda þéttu tempói þó ég væri einn og horfði wöttinn stöðug á 310-320 sem er öruggt svæði fyrir mig. Meðalwött fyrstu 20 mín var 350 sem er ögn of mikið enda missti ég af hópnum í einni hraðabreytingunni. Þegar ég átti stutt eftir að Reykjanesvirkjun náðu 5 menn mér og jókst þá hraðinn þar sem við unnum ágætlega saman, mér fannst þó sumir í hópnum ekki nægjanlega sterkir og þar sem ég sá glitta í 2 keppendur ekki svo langt á undan vildi ég auka hraðan aðeins. Ég notaði tækifærin sem gáfust niður í mót að auka hraðan og athuga hvort einhver einn eða tveir kæmu með mér en aldrei greip neinn tækifærið með mér og þarna var ég orðinn hræddur um að þrír keppendur allir þrælmerktir Trek væru að sjóða saman plan sér í hag. Þegar ég var orðin sem mest móðurskjúkur og hætt að standa á sama duttu tveir þeirra aftur úr hópnum og eftir vorum við 4. Samstarfið hélt ágætlega áfram og alltaf nálguðumst við þessa tvo keppendur sem voru á undan og ég var orðin heitur að reyna að ná þeim. Hér var farið að draga á fjórða manninn okkar sem datt aftur úr þegar um 10km voru í mark. Það var akkúrat á því augnabliki sem ég áttaði mig á því að mennirnir tveir sem voru á undan okkur væru þeir Viðar Bragi og Rúnar Örn, tveir af bestu þríþrautargörpum á landinu, og ef einhver getur haldið uppi háu tempói í langan tíma þá væru það þeir. Vonir okkar að ná þeim urðu að engu og þegar við nálguðumst markið hélst bilið jafnt og þétt. Þegar við þremenningarnir nálguðumst endamark fór ég að skipuleggja endasprett. Ég tapaði endasprett árinu áður því keppinauturinn fór fyrr af stað. Maður vill heldur ekki fara of snemma af stað og láta keppinautinn komast aftan að sér í kjölsoginu og skjótast fram úr á hárréttu augnabliki. Þetta er því erfitt og sérstaklega þegar við erum þrír. Ég tók ákvörðun, þegar 500m eru eftir í mark ætla ég af stað, fór aftur fyrir og var búinn að reikna út að næst þegar kæmi að mér að vera fremst væri tilvalið að fara af stað en þá áður en ég gat klárað hugsunina var Valli farinn af stað, Guðlaugur sem var á milli mín og Valla gat ekki elt og því varð ég að brúa ansi langt bil sem ég reyndi og tókst næstum en varð að játa mig sigraðan í þessari viðureign. Ég kom í mark á tímanum 1:47 með rúmlega 35km meðalhraða. Ég var að hjóla mína fyrstu keppni með Garmin Vector aflmæli og fannst mér það mjög þægilegt að vita ávallt hvað maður er að erfiða. Til að mynda gat ég hjólað einn og haldið ávallt uppi góðu tempói án þess að fara of geyst. Þakkir fá: Keppnishaldarar fyrir vel skipulagða keppni thriko.is/live fyrir tímatöku Garmin fyrir frábæra aflmæla og videvél Fiskmarkaðurinn fyrir afnot af Carbon gjörðum TRI fyrir frábært hjól Rauch |