Road to better life
  • Leiðin til betra lífs
  • Blog
  • Instagram
  • Video

Jökulmílan 2014

PictureMynd: Örn Sigurðsson
Jökulmílan er ein af þeim keppnum á dagatalinu sem ég hef beðið eftir með hvað mestri eftirvæntingu. Ég ákvað að gera fjölskylduferð úr þessu, ég og kærastan fórum með þrjár stelpur með okkur og gistum í tjaldvagni 2 nætur.

Við vorum mætt rétt eftir kvöldmat og komum okkur fyrir ásamt fleirum og myndaðist fín stemmning á tjaldsvæðinu. Allir voru spenntir fyrir keppninni og byrjuðu menn að raða racer fákum í kringum tjaldbúðirnar.

Ég svaf gríðarlega vel og vaknaði ekki fyrr en 9 daginn eftir. Ég byrjaði strax að háma í mig orku og dittaði örlýtið að hjólinu, það var klárt, klæddi mig og var mættur á raslínu upp úr 10 til að taka smá upphitun og heilsa upp á þá sem mættu um morgunin. Margir veltu fyrir sér hvernig taktík yrði spiluð í dag en ég hafði ekki neinar áhyggjur af öðru en að það yrði keyrður upp hraðinn upp Búlandshöfða og á næstu brekkum þar á eftir. Þó léttustu menn kannist ekki við að þetta séu neinar sérstakar brekkur þá munar um 86m hækkun fyrir okkur þyngri

Picture
Hópurinn alls 100manns hjólar fram hjá Kirkjufelli á leið frá Grundarfirði Mynd: Örn Sigurðsson
PictureMynd: Örn Sigurðsson
Í fyrra var ég skilinn eftir á Búlandshöfða og hafði því varan á, ég kom mér framarlega og var líklega þriðji maður inn í brekkuna, ég fagnaði sigri þegar á toppinn var komið, leit til baka og sá að fleiri höfðu lifað af. Náði að jafna mig vel á leiðinni niður en það var bara til að átta mig á því að þegar niður var komið var hliðar vindur og fremstu menn keyrðu upp hraðann og skildu eftir lítið pláss fyrir aftari menn. Fljótlega slitnaði ég aftur úr og myndaðist fjögurra manna hópur, ég, Magnús Fjalar, Bjarni Garðar og Elías. Við héldum uppi ágætis hraða saman í gegnum Rif og við Hellissand náðum við Atla og Bjarna Birgis og þá vorum við sex. Við sáum engan hóp fyrir aftan okkur en fjórir góðir hjólarar voru rétt fyrir framan okkur eða þeir Ármann, Sigurður Hansen, Viðar Bragi og Helgi Berg. Við dróum aðeins á þá en alltaf fjarlægðust þeir aftur. Líklega var það ógerlegt að ná þeim en þarna eru hrikalega sterkir menn á ferð. Okkar hópur var ekki nógu samheldinn, skiptingar gengu ekki nógu vel, oft áttuðu menn sig ekki á að vera réttu meginn á veginum því vindáttin breyttist auðvitað þegar teknar voru beigjur, og stundum var hraðinn ekki nægjanlega jafn. 

Ég hefði sjálfur viljað gera eitthvað í þessu og fá 2-3 sterkustu til að keyra hressilega upp hraðann en ég var hreinlega ekki nógu vel stefndur sjálfur og íllt í maganum, líklega af ofáti í keppninni. Ég tók smá pásu frá geli og orkustykkjaáti en ég hafði innbyrt orku á 30 mín milli bili sem hafði reynst mér vel í fyrra og dró það í 50 mín. Mér fór að líða betur þegar 90km voru liðnir og þá fór ég að taka þéttar og stundum langar keyrslur fremst. Í einni þeirra datt Elías aftur úr og hélt ég áfram að taka langar keyrslur á hámarsk wöttum í 2-3 mín og fór að því loknu aftast og hvíldist í skjólinu.

PictureMynd: Örn Sigurðsson
Þegar við nálguðumst vegamót að vatnaleið ákvað ég að slaka aðeins á því ég vissi að léttari strákarnir í hópnum myndu getað slátrað mér í brekkunni upp á vatnaleið, samtals 190m hækkun og þar af 100m hækkun með 7% halla. Skyndilega stoppuðu allir á drykkjarstöðinni eftir orku og klósettferð. Ég sem var svo fínn og hress loksins tímdi ekki að stoppa, þó það sé ekki það drengilegasta en ég gat ekki tekið þá áhættu og ákvað að hjóla áleiðis og bjóst við að þeir fjórir myndu draga mig uppi í brekkunum og sameinast á ný.

Fljótlega sá ég glitta í HFR galla og þegar ég komst í brattasta kaflan hafði ég náð honum Ármanni sem sagði mér akkúrat hina söguna að hann hefði verið að skrælna upp, stoppað og hans hópur skilið hann eftir. Ég hjólaði á eftir honum upp brekkuna og svo fór ég á undan niður og Ármann notaði skjólið vel. 

Við hjóluðum saman í mark og vorum báðir ánægðir með að klára, gerðum grín þegar 5 km voru eftir hvort við ættum kannski að snúa við eða láta sækja okkur en þreyttir en sælir komum við í mark á 4:47 og ég í 10. sæti. 

Picture
Á leið í mark, sælir en þreyttir. Mynd: Örn Sigurðsson
Picture
Annað árið í röð verð ég að þakka Keppnishöldurum fyrir frábæra keppni, og í þetta sinn frábæra helgi. Vel var að öllu staðið og allt mjög fagmannlegt. Við tókum stelpurnar okkar með og þær tóku þátt í krakkamílunni og yngri dóttir mín aðeins 5 ára fékk að taka þátt þó miðað hafði verið við 7 ára og mikið voru þær ánægðar með Gullpeningana sem þær fengu fyrir að keppa í sinni fyrstu hjólakeppni. Takk fyrir að gera helgina frábæra fyrir allt mitt fólk.
Sjáumst að ári

Kærar þakkir fá:
Hjólamenn og thriko fyrir vel skipulagða og skemmtilega keppni
Trí fyrir frábært Cube Litening hjól
Ágúst Reynisson og Fiskmarkaðurinn fyrir góðan stuðning
Garminbúðin fyrir Garmin Vector Aflmæli
Örn Sigurðsson fyrir myndir, fleiri myndir hér

Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Picture
Proudly powered by Weebly