Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum 2015
Íslandsmeistaramótið fór fram í Hvalfirði 9. ágúst í blíðskaparveðri, já, blíðskaparveðri. Lítill vindur miðað við að hjólað er inn og út fjörð með dölum og fjallstindum sem allir eiga það til að búa til snarpa vindstrengi hér og þar. Sól var á tímabili og heitt. En fjörðurinn er ægi fagur og að keppa þarna er mjög skemmilegt.
Því alvarlegri sem keppnirnar eru mæta færri til leiks, en allir bestu mæta ávallt. Því er þetta alltaf gríðarlega sterkar keppnir og nú þegar keppnin endar í snarbrattri brekku vissi ég fyrirfram að minn séns á góðum úrslitum var lítill sem enginn. Eingum get ég kennt um það nema sjálfum mér en langt er ég frá mínum markmiðum í þyngd og var ég ekkert sérlega vel stemmdur fyrir þessa keppni. Þegar ég var að hita upp kom Hafsteinn til mín og spurði mig um hressleika, ég svaraði því til með vott af neikvæðni og hann sagði þá er bara að gera eitthvað sniðugt. Með þau orð fór ég í keppnina og ákvað að gera mitt besta og rúmlega það. Þegar keppnin var ræst og rúmlega 30 keppendur hjóluðu frá Meðalfellsvatni út á Hvalfjarðarveg til suðurs hélt ég mig framarlega og í skjóli sem mest. Eftir snúning þegar um 20km voru liðnir af keppninni fer Stefán Haukur rólega fram úr hópnum og Bjarni Már á eftir honum. Ég var þá nánast fremst og sé að hópurinn hefur litlar áhyggur af þessu. Þá kemur Jóhann Sigurjónsson á fleygiferð og nær þeim félögum og þá var komið þriggja manna breik.
Allir voru þeir í sama félagi og þegar svona staða myndast er það andstæðingar okkar sem þurfa að ákveða sig hvort þremenningarnir fái að fara eða hvort þeir ætli að elta. Kristján Oddur úr Tind kemur þá og ætlar að reyna að ná þeim og kem ég beint á eftir honum til að sýna honum að ef þú eltir þá kem ég með. Hann sprettir þá af stað og ég og Guðmundur Sveinsson eltir og þá myndaðist 6 manna hópur og náðum við fljótlega rúmlega mínútu forskoti.
Þá var komin sú staða að allir HFR-ingar héldu sig í skjóli fyrir aftan sína andstæðinga og Tindsmenn þurftu að brúa bilið. Fljótlega fáum við þær fregnir að Óskar er að reyna að komast yfir til okkar og það einn. Það mátti alls ekki gerast því ef hann kæmist yfir væru Tindsmenn í hópnum orðnir tveir og þá þyrftu félagar mínir í HFR að byrja að elta. Við gáfum hressilega í og náðum að vinna vel saman, það er að segja við 5 sem vorum í HFR og Kristján Oddur, Tind stóð sig vel í að vera fyrir og reyna að flækja samvinnu okkar. Ég tók þá á það ráð að fara sjaldan alla leið aftur fyrir hópinn, tróð mér alltaf inn í miðjan hópnn og helst alltaf fyrir framan hann. Bjarni Már var fyrstur út úr hópnum en hann tilkynnti mér að hann væri alveg að gefast upp og ætlaði að gera Kristjáni lífið leitt á síðustu metrunum sínum. Sagði mér að fylgjast vel með ef það kæmi bil á milli og gefa þá í. Eftir þrjár tilraunir datt Bjarni aftur úr og þá vorum við 5. Næstur út úr hópnum var Jóhann Sigurjónsson en hann er því miður að glíma við hnémeiðsli og hnéð var hreinlega búið þegar við vorum í botninum en sagðist ætla að taka 2-3 sterk púll fremst og hætta svo, þá vorum við 4.
Samsetningin var þá 3 í HFR og einn í Tind. Samvinnan gékk ágætlega og þegar við snérum tók ég tímann á hópinn í fyrsta sinn sjálfur. Mælinginn var langt í frá að vera nákvæm en gaf mér vísbendingu um að við værum 2 mín á undan þeim. Í brekkutoppunum við Hvalstöðina tek ég aftur tíma og sé að bilið er að minnka. Ég gaf þá hressilega í og var alltaf á um og yfir 400w þegar ég var fremst. Þessar hraðabreitingar í brekkunum gerði það að verkum að Kristján Oddur datt aftur úr og um leið og ég sá það gaf ég strákunum fyrirmæli um að nú væru stuttar skiptingar, bara 5-10 sek fremst til að tryggja að hann næði okkur ekki aftur, og þá vorum við þrír. En hópurinn nálgaðist engu að síður og þegar um 15 km voru eftir náðu þeir okkur og þá var bara að reyna að hanga í þeim eins lengi og hægt væri. Ég datt þó fljótlega aftur úr og hugsaði þá er mínu verki lokið en þá kom fylgdarbíllinn upp að mér, Rúnar Örn öskraði þetta er ekki búið, náðu þeim og ég rembist, næ þeim eftir smá stund og kemst í skjól. Fljótlega kemur Hafsteinn til mín og segir, þú þarft að fara í breik niður í Hvamsvík. Með ekkert eftir í tönkunum reyni ég að safna smá orku, hangi í skjóli og þegar við erum komnir upp á brekkutoppinn sting ég af niður. Óskar þurfti að elta og fannst mér það æði, það er ekkert eins gaman eins og að láta aðra draga sig inn og sjá að þeir þurfa að hafa fyrir því. Ég átti samt ekki næga innistæðu fyrir þessari árás og þegar næstsíðasta brekkan í keppninni kom náðu þeir mér og þá datt ég strax aftur úr, 10 manna hópur æddi áfram og ég sá á eftir þeim upp síðustu brekku. Þetta var búið hjá mér þarna og hjólaði ég rólega upp síðustu brekku og gladdi það mig mikið þegar ég kom í mark að kærastan mín kom að taka á móti mér og stelpurnar mínar tvær.
Sjálfur lenti ég í 11. sæti og náðum við að koma HFR-ing í annað og fjórða sæti. Stefán Haukur flaug upp brekkuna og náði sjöunda sæti og þriðja í aldursflokk og gladdi það mig mikið. Reynir minn besti æfingafélagi tók svo gull í 50 ára og eldri. Þá veit maður að maður á mörg ár eftir í þessu æðislega sporti. Já sportið er æðislegt, ég óskaði öllum sigurvegurum til hamingju með árangurinn og Kristján Oddur kom til mín og baðst afsökunar á að hafa ekki lagt mikið af mörkum í hópnum. Mér fannst það svo eðlilegt en var sjálfur með bullandi samviskubit að hafa sýnt honum hörku í hópnum. Það er frábært þegar íþróttamenn geta barist inn á vellinum og svo er það búið eftir og allir vinir. |
Kærar þakkir fá:
Liðið mitt, HFR og Örninn Trek fyir gott samstarf.
Örninjn fyrir Trek Émonda SL8
Ágúst Reynisson og Fiskmarkaðurinn fyrir góðan stuðning
Garminbúðin fyrir Garmin Vector Aflmæli og myndavélar til að gefa okkur insýn
Kjartan Þór Þorbjörnsson fyrir flotta mynd í endamarki.
Liðið mitt, HFR og Örninn Trek fyir gott samstarf.
Örninjn fyrir Trek Émonda SL8
Ágúst Reynisson og Fiskmarkaðurinn fyrir góðan stuðning
Garminbúðin fyrir Garmin Vector Aflmæli og myndavélar til að gefa okkur insýn
Kjartan Þór Þorbjörnsson fyrir flotta mynd í endamarki.