
En aðalatriðið er að setja sér markmið sem eru raunhæf. Markmið geta verið stór og smá en öll eru þau krefjandi og setja okkur ákveðin mörk. Fyrstu skammtímamarkmiðin mín var að geta hjólað, geta hjólað til vinnu, geta hjólað til vinnu flesta daga vikunnar, geta hjólað Reykjavíkurhring á leiðinni heim úr vinnu og svo setti ég mér markmið að geta hjólað frá Kastrup flugvelli niður til Fylkis vinar míns í Sönderborg á suður Jótlandi.
Þegar ég svo setti mér þetta stóra markmið setti ég alla mína orku í að undirbúa mig, velja leiðir, kaupa bögglabera, töskur og tjald, undirbúa mig andlega og um leið ræða markmiðin mín við aðra um leið. Fylkir studdi mig vel, strákarnir í Erninum (var ekki að vinna þar þá) studdu mig vel, fékk mikla athygli í vinnunni fyrir þetta og auðvitað í fjölskyldunni. Fólk kom með skoðannir, flestir á þá leið að ég væri að fara einn, pínu skrítinn, en það var góð ástæða fyrir því, aðalatriðið var að hjóla til vinar míns Fylkis sem ég sótti svo mikinn innblástur til.

Markmiðin geta verið stór og smá og þó ég sé með mörg markmið fyrir sumarið nota ég enn sömu aðferð og við upphaf ferðalagsins, ég set mér skammtímamarkmið sem eru raunhæf, ræði þau við fólk í kringum mig og er staðráðinn í að standast þau þó krefjandi séu.
Stóra markmið ársins er að létta mig, markmið sem ekki gékk vel í fyrra. Og til að standast það markmið hef ég sett mér nokkur skammtímamarkmið, nefnilega að fara aftur til Tenerife, bæta tímann minn upp brekkurnar og til þess að það gerist verð ég að setja alla mína orku í það verkefni, léttast....
Stærsta Hvatningin til að standast þessi markmið er t.d. að horfa nógu oft á það þegar Haffi stakk mig frekar léttilega af upp brekkuna frá Granadilla til Villaflor á Tenerife í fyrra. Ég klippti þetta myndband sérstaklega fyrir sjálfan mig, halda haus og markmiði. Þannig að þegar ég tek traineræfingu þá er ég að horfa á þetta myndband. Það er samt ágætt að halda því til haga að ég mun líklega ekki stinga Haffa af upp brekkurnar á Tenerife, en að bæta sinn eiginn tíma er sigur og stórt markmið.