
Það var einmitt það sumar sem ég kynntist Valda í gegnum Reiðhjólabændur og þegar hann óskaði eftir félagskap á morgnanna til að hjóla var ég ekki lengi að bjóða mér með. Í morgun kl 6:40 hittumst við í Fossvogsdalnum og hjóluðum þar til við fundum lykt af kaffi, hafragraut og nutella en það var að sjálfsögðu auðfundið á heimili Hjólreiðamanns og konu ársins, margfaldra íslandsmeistara og umfram allt gott fólk.

Það er bara eitthvað við það að vakna snemma og skella sér út í hvernig veður sem er og hjóla, það að sigrast á veðrinu er frábær tilfinning.
Dagurinn var svo toppaður með því að smygla mér á æfingu hjá Tind eftir 11 tíma vinnudag og ekki var úrvalið af góðu fólki verra þar.
Þetta er mesta snilldin við hjólreiðar á Íslandi. Það eru allir vinir, óháð félagi, stöðu og getu. Allir geta hjólað saman og notið útiverunnar. Frábær dagur og takk fyrir mig.