
Markmið eitt og sér hefur heldur ekki virkað fyrir mig. Mér hefur gengið best þegar ég set mér eitt aðalmarkmið, bý mér svo til önnur minni markmið eða set mér verkefni sem svo styðja við aðalmarkmiðið. Þess vegna ákvað ég að hjóla til vinnu 1-2 sinnum í viku jafnvel þótt ég væri sóttur eftir vinnu, stundum skutlað hálfa leið á morgnanna og jafnvel tók ég strætó upp síðustu brekkurnar á 12km leið minni heim úr vinnu. Það gékk ágætlega framan af en til að halda mér við efnið ákvað ég að fara í ferðalag á hjólinu, eiginlega hoppa út í djúpu laugina. ég pantaði flugmiða til Danmerkur og ákvað að hjóla í heimsókn til vinar míns og njóta hverrar mínútu.
Nú 10 árum síðar langar mig mjög að endurtaka leikin, og því er stóra markmið og verkefni ársins 2021 að fara aftur til Danmerkur. Ég hef gengið með þessa hugmynd í 2 ár og ef Covid-19 leyfir þá mun ég fljúga seinnipart sumars til Danmerkur og núna, hjóla lengra, fjölbreyttari leiðir og njóta alls sem Danmörk hefur upp á að bjóða. En fyrst og fremst fagna 10 ára heilsubetrunar afmæli mínu og vera þakklátur því að hafa tekið þessa ákvörðun fyrir 10 árum og haldið það út.