Alvogen Midnight Timetrial 2014
![]() Þetta er í annað sinn sem Alvogen Midnight Timetrial er haldið og núna var algjör viðsnúningur í hugarfari hjá mér. Í fyrra hafði ég litla trú á eigin ágæti í tímatökum en nú hafði mikið breyst þar. Eftir harðar æfingar í vetur samkvæmt æfingaáætlun og undirbúningsvinnu í vor fór ég í þol próf þar sem danski þjálfarinn okkar hvatti mig til að fara í tímatökukeppnir en niðurstöður þolprófsins bentu til þess að þær henti mér vel þar sem ég er mjög sterkur. Þyngdin vinnur ekki svo gégn mér á jafnsléttu en er mikill ókostur í brekkunum. Það var því ekkert annað að gera en að hugsa jákvætt um Tímatökukeppnir og njóta þess að pína sig.
Endilega lesið Alvogen keppnissöguna mína frá í fyrra en þá hafði ég ekki mikla trú á mér í þessa keppni, fannst frekar óþægilegt að ræsa sjötti aftastur og lenti í 5. sæti, en núna var komið blóðbragð í munnin og ég vildi helst ræsa aftastur en vissi að Óskar með betri árangur en ég í fyrra fengi það pláss og Helgi Berg yrði einnig ræstur seinna en hann var í öðru sæti í fyrra. Það varð úr að ég var ræstur þriðji síðastur og var mikil spenna fyrir keppninni. Ekki var ég minna ánægður þegar mér var tilkynnt að ég ætti frátekið pláss í keppninni en færri komast að en vilja. Ég ætlaði að leggja allt í þetta og þar þarf að hugsa fyrst og fremst um loftmótstöðu. Ég fékk skinsuit í Trí sem er buxur og treyja saman úr sérstaklega þunnu efni og lítið af saumum, engin brot og ermar ófaldaðr til að allt sé eins slétt og hægt er og taki sem minnstan vind. Ég skrúfaði bæði brúsastatífin af en þessi keppni er stutt, um 25 mín, og því á mörkunum að ég þurfi að drekka nema þá helst bara til að skola munninn. Ég varð mér út um skóhlífar til að minnka loftmótstöðuna en braut svo regluna og skrúfaði myndavél á hjólið, bæði framan og aftan en mig langaði bara svo að eiga skot af því þegar ég hjólaði niður af startrampinum með alla þessa fallegu áhorfendur sem voru væntanlegir að fylgjast með.
Mjög vel er að keppninni staðið og umgjörðin fagmannleg. Við mættum í Hörpu og sóttum númer og fengum dry-fit bol merktan keppninni og svo var hitað upp. Spennan var gríðarleg þegar Borgarstjóri ræsti fyrsta keppanda og svo voru keppendur ræstir með 30sek millibili. Þegar kom að mér var púlsinn í botni af spenningi en ég reyndi að einbeita mér, koma mér fyrir á hjólinu, smella mér í petalana og niðurtalningin byrjaði. Ég hafði hugsað mér að fara eins rólega af stað eins og ég gæti til að spara lærin og verja fyrir mjólkursýru myndun, eitthvað sem allir tala um í hvert sinn en það er hægara sagt en gert þegar áhorfendur öskra á eftir manni. Þegar ég var kominn af stað og hjólaði að ég hélt nokkuð skynsamlega af stað en um leið og ég var kominn út á Sæbrautina og leit á mælinn voru meðalwött síðustu 30sek 700w og max 1290 sem er nýtt met. Ekki alveg það sem ég ætlaði að gera að setja met í mjólkursýru. Hraðinn var strax kominn í 50km hraða og fór ég að fylgjast með púlsinum. Ég vildi hafa hann í 164-5 og halda honum og wöttunum stöðugum. Keppnin sjálf gékk tíðindalaust fyrir sig, viljandi var ég ekki með hraða sýnilegan því ég vildi einbeita mér af wöttum og púls og því vissi ég ekkert um gang mála, eftir fyrsta viðsnúning reyndi ég að leggja á minnið hvar ég mætti mönnum og á þeim næsta reyndi ég að muna hvar ég sá þá síðast til að sjá hvort ég væri að búa til forskot eða tapa tíma. Ég var líklega of sýrður í hausnum til að átta mig á því og því hélt ég bara áfram að einbeita mér að því að hjóla, halda jöfnum hraða og álagi sem var svona eins vont eins og ég þorði að halda uppi.
Viðsnúningurinn við Hörpu var alltaf skemmtilegastur því þar voru áhorfendurnir og mínir stuðningsmenn. Kærastan mín hafði lagt mikið á sig í að undirbúa og mála hvatningarorð á lengsta stuðningsborða sem sést hefur í íslenskri hjólreiðakeppni, keypti hristur og blöðrur fyrir börnin. Systkini mín komu með sín börn og foreldar mínir komu til að hvetja mig. Gamla kempan, íslandsmeistarinn Páll Elísson kom ásamt sinni frú og barnsmóðir mín kom og aðstoðaði stelpurnar mínar að hvetja. Fleiri komu og hvöttu mig áfram, allstaðar á brautinni heyrði ég hvatningarorð og þótti mér gríðarlega vænt um það. Skemmtilegast er kannski hvað keppnishöldurum tekst að búa til flotta umgjörð um keppnina. Hingað til hafa keppnirnar fyrst og fremst verið fyrir keppendur en þessi keppendur er ekki síður fyrir áhorfendur sem lifa sig inn í og upplifa spennuna sem fylgir að taka þátt í svona keppni. |
Kærar þakkir fá:
Trí fyrir frábært Cube Litening hjól
Trí fyrir níðþröngt Louis Garneau skinsuit, tróð mér í medíum stærð sem hefði getað rifnað utan af mér á pallinum, en hey, lifum á brúninni :)
Ágúst Reynisson og Fiskmarkaðurinn fyrir góðan stuðning
Garminbúðin fyrir Garmin Vector Aflmæli
Allir sem mættu og tóku myndir
og stuðningsliðið sem mætti og hvatti mig áfram, þið eruð klárlega best og þá Sérstaklega Margrét TH Friðriksdóttir sem eyddi heilum degi í að mála, skreyta og blása upp blöðrur, takk
Trí fyrir frábært Cube Litening hjól
Trí fyrir níðþröngt Louis Garneau skinsuit, tróð mér í medíum stærð sem hefði getað rifnað utan af mér á pallinum, en hey, lifum á brúninni :)
Ágúst Reynisson og Fiskmarkaðurinn fyrir góðan stuðning
Garminbúðin fyrir Garmin Vector Aflmæli
Allir sem mættu og tóku myndir
og stuðningsliðið sem mætti og hvatti mig áfram, þið eruð klárlega best og þá Sérstaklega Margrét TH Friðriksdóttir sem eyddi heilum degi í að mála, skreyta og blása upp blöðrur, takk